Með fyrstu gervitunglunum og mönnuðum geimferðum eftir miðja síðustu öld fóru að sjást myndir af jörðinni þar sem mjög stórir hlutar hennar og síðan öll jörðin sáust á einni ljósmynd. Með þróun stafrænnar gagnaöflunar frá gervitunglum varð síðan mikil þróun í fjarkönnunartækni sem varð fyrst verulega sýnileg á Íslandi þegar innrauðar gervitunglamyndirnar fóru að berast til landsins snemma á áttunda áratugnum.

Gervitunglagögn, sem eru annar af tveimur stærstu gagnaflokkunum á sviði fjarkönnunar ásamt loftmyndum, hafa síðan með fjölda ólíkra gervitungla, aukinni greinihæfni og betri upplausn gjörbreytt því hvernig við sjáum jörðina fyrir okkur. Stórkostleg tækifæri hafa skapast á ýmsum sviðum og við nálgumst nú verkefni til dæmis í landfræðilegri gagnavinnslu og skipulagningu í umhverfismálum á heimsvísu með allt öðrum hætti en áður. Aðgengi að gervitunglagögnum af jörðinni er nú gott á netinu til dæmis í Google Earth, Google Maps, Bing og fleiri vefgáttum og sama er að segja um aðgengilegar pöntunarþjónustur fyrir gögn frá hinum ýmsu gervitunglum. Stóru netveiturnar sýna hins vegar aðeins samklipptar heildarmyndir og þar er eingöngu byggt á nýlegum eða nýjustu gögnum. Eldri samanburðargögn koma þar ekki fram og þau þarf að nálgast með öðrum hætti.

En höfum við tryggingu fyrir að gögn þessarar gerðar frá ólíkum gervitunglum með ólíka myndnema sem aflað hefur verið á liðnum áratugum og geymd í vörugeymslum erlendis verði aðgengileg til að nýta við samanburðarverkefni á Íslandi í framtíðinni? Svara verður því neitandi og því er nauðsynlegt að mótuð verði opinber stefna um það hvaða gögn þjóðin á að eiga fyrir slíkan samanburð í framtíðinni, ákveða þarf hver eigi að halda utan um þau og gera efni þeirra aðgengilegt, en frumgögnin eru nú varðveitt erlendis á forgengilegum miðlum og gætu eyðilagst eða verið tekin fyrirvaralaust úr sölu og myndu þar með ganga okkur úr greipum.

Á þessari síðu eru annars vegar birtir tenglar í nokkra pistla um gervitunglagögn af Íslandi fyrstu áratugina, einkum frá LANDSAT og SPOT og svo um þær heildarmyndir sem gerðar hafa verið af landinu eftir slíkum gögnum. Þá eru einnig birtar slóðir í nokkrar erlendar upplýsingaþjónustur þar sem panta má gervitunglagögn af Íslandi.

Æskilegt er að til verði íslensk upplýsingasíða í formi kortasjár með römmum af svæðisþekingum gervitunglamynda, þar sem dregnar séu saman upplýsingar um hvað til er af þessari tegund gagna hjá ýmsum stofnunum á Íslandi. Þá er einnig mikilvægt að eiga á einum stað upplýsingar um hvað til er af slíkum gögnum af Íslandi í geymslum erlendra fyrirtækja á þessu sviði. Stefna innanlands um gagnaöflun, varðveislu og aðgengi í þessum málaflokki er ekki til, en styðja þarf hugmyndir sem vitað er um innan íslenskra stofnana um að veita betra aðgengi að núverandi safnkosti hér á landi og stuðla að því að til verði samanburðarhæf sýnishorn af gervitunglagögnum af Íslandi frá öllum helstu gervitunglunum aftur í tímann. Þau eru all nokkur, en þegar er í landinu eitthvað af slíku efni sem er vissulega grunnur að meiru. Við verðum hins vegar að vera vakandi fyrir því að missa ekki af gögnum, en reynslan sýnir okkur að gögn á þessu sviði eru forgengileg og við vitum heldur ekki í dag hvaða svæði landsins verður þörf á að geta rannsakað í framtíðinni, til dæmis með samanburði ólíkra gervitunglagagna langt aftur. Kostnaður vegna markvissra og skipulegra gagnakaupa þarf ekki að vera svo hár þegar upp er staðið þar sem eldri gögn eru oft seld á lágu verði eftir því sem árin líða.