Í október 2015 var framsetningu landakort.is breytt umtalsvert, skipt var um hugbúnað og komið á reglubundinni birtingu pistla um málefni tengd upplýsingafræði landrænna gagna. Tilgangurinn með skrifunum er meðal annars að fjalla um sértæk landfræðileg og upplýsingafræðileg fagefni í almennu en ekki of löngu máli, þannig að með framsetningunni megi smám saman auka skilning og skapa áhuga fleiri á að bæta aðgengi að upplýsingum um landfræðileg gögn hér á landi, en fyrir þá sem þurfa að fá slík gögn getur verið erfitt að rata um vegi netsins, ef efnið er þá aðgengilegt þar yfirleitt.
Aðgengi að upplýsingum um efni íslenskra korta- og loftmyndasafna er á ýmsum stöðum á netinu. Þar eru farnar ólíkar leiðir í framsetningu og væri æskilegt að hugað yrði að meiri samræmingu í því hvaða og hvernig upplýsingar eru settar fram um kort annars vegar og hins vegar um loftmyndir og gervitunglagögn. Það eru raunar engar íslenskar vefsíður til sem birta skrár um gervitunglagögn, en slíkt efni um Ísland þarf því að finna á erlendum leitarsíðum. Þegar talað er um samræmingu er ekki endilega verið að ætlast til sameiginlegra veflausna og sama búnaðar á fyrsta stigi þó slíkt væri að sjálfsögðu æskilegt og skynsamlegt, heldur frekar að horfa til „svipaðra“ lausna þannig að notendur sem nota veftólin tiltölulega sjaldan þurfi ekki að setja sig inn í virkni margra veflausna sem engar eru eins og með misjafnlega ítarlegum upplýsingum. Huga mætti fyrst að tilraunaverkefnum á þessu sviði ef samstaða næst og fjármögnum fæst til þess.
Á þessari vefsíðu eru tenglar í aðra vefi, vefgáttir og kortasjár, auk pistla undirritaðs af landakort.is, notaðir til að veita upplýsingar um landfræðileg söfn á Íslandi og gagnaflokka innan þeirra. Þess er vænst að framsetningin auðveldi notendum slíkra gagna að finna hvað er til og vísi þeim á hvert þeir geti leitað til að fá efni í hendur ef það sem er þegar niðurhlaðanlegt af netinu nægir ekki.
Þess er vænst að opnun þessar vefsíðu verði til þess að skapa umræður um möguleika til samræmingar og nýrra samstarfsverkefna opinberra stofnana og einkafyrirtækja sem koma þurfa að málum. Aðgengi almennings að upplýsingum um landfræðileg gögn þarf að vera í forgrunni um leið og skráning gagnanna og skönnun yrði til að tryggja betur varðveislu og öryggi þessa landfræðilega hluta menningararfs þjóðarinnar. Til þess að geta skipulagt og unnið slík samstarfsverkefni þarf að greina hvaða gagnaflokkar eru til hér á landi og erlendis með útgefnum sem óútgefnum kortum, loftmyndum og gervitunglagögnum af Íslandi. Við eigum ekki yfirlitsupplýsingar á einum stað um atriði eins og það hvaða gagnaflokkar eru til, hvar þeir eru geymdir, hver ber ábyrgð á þeim, hvert umfang þeirra eða ástand er, fyrir hvaða tíma gögnin gilda, hvaða landsvæði þau sýna, hvert er skráningarstigið, varðveisluaðstæður og svo mætti lengi telja. Slíkt gagnasöfnunar- og skráningarverkefni hefur verið skipulagt, en fjármögnun vantar.